Körfubolti

Fimmtándi heimasigurinn í röð hjá Hlyni og Jakobi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson var með flotta tvennu í kvöld.
Hlynur Bæringsson var með flotta tvennu í kvöld. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons hélt áfram sigurgöngu sinni á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta með því að vinna 23 stiga sigur á Borås Basket, 111-88, sem er í 4. sæti deildarinnar. Drekarnir eru áfram með sex stiga forskot á toppnum.

Drekarnir töpuðu fyrsta heimaleik vetrarins en hafa síðan unnið fimmtán leiki í röð í Sundsvall.

Hlynur Bæringsson var með 16 stig og 14 fráköst fyrir Sundsvall í leiknum í kvöld og Jakob Sigurðarson hitti illa (3 af 17) en bætti við 6 stigum, 7 fráköstum og 9 stoðsendingum.

Sundsvall var 63-56 yfir í hálfleik en Borås minnkaði muninn í fjögur stig, 71-67, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum og Peter Öqvist, þjálfari Sundsvall og íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, tók leikhlé.

Sundsvall vann síðustu fimm mínútur leikhlutans 21-2 og var með 23 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 92-69. Eftir það var sigurinn svo gott sem í höfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×