Körfubolti

Fær tvo milljarða í laun en spilar ekki mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Bynum.
Andrew Bynum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andrew Bynum, miðherji Philadelphia 76ers og fyrrum miðherji Los Angeles Lakers, hefur ekki enn náð að spila leik með nýja liði sínu á þessu tímabili og mun heldur ekki bæta úr því á næstunni.

Bynum hefur verið að glíma við hnémeiðsli alveg síðan að Philadelphia 76ers fékk hann í skiptum frá Lakers síðasta sumar en í þeim skiptum endaði Dwight Howard meðal annars hjá Los Angeles Lakers. Nú er orðið ljóst að miðherjinn stóri og stæðilegi þarf að fara í hnéaðgerð og missir því af öllu tímabilinu.

Philadelphia 76ers lét frá sér þrjá leikmenn fyrir Andrew Bynum. Nik Vucevic og Mo Harkless fóru til Orlando og Andre Iguodala endaði hjá Denver Nuggets.

Andrew Bynum er á síðasta ári samnings síns sem hefur honum 16,9 milljónir dollara í laun eða meira en 2,1 milljarð íslenskra króna. Félagið þarf þó ekki að borga laun hans í vetur því tryggingarnar fá þann stóra reikning þar sem að Bynum náði ekki að spila eina einustu mínútu á tímabilinu.

Nú er bara stóra spurningin hvað gerist í sumar því það er ekki enn ljóst hvort að 76ers-liðið munu bjóða honum nýjan samning. Houston Rockets og Dallas Mavericks hafa bæði nægt rúm undir launaþakinu til að bjóða Andrew Bynum góðan samning í sumar en hvort þau vilji taka áhættuna á þessum meiðslapésa er önnur saga.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×