Albrecht var með 1,8 stig að meðaltali í leik fyrir úrslitaleikinn og í algjöru aukahlutverki hjá Michigan. Hann kom inn af bekknum í fyrri hálfleik vegna villuvandræða Trey Burke og átti stórkostlega innkomu.
Hann skoraði 17 stig í fyrri hálfleik og raðaði niður ótrúlegum þriggja stiga skotum. Hann kólnaði í síðari hálfleik og Michigan tapaði leiknum.
Albrecht ákvað eftir leikinn að mjólka 15 mínúturnar sínar með því að senda eftirsóttustu fyrirsætu heimsins, Kate Upton, skilaboð á Twitter.
"Hæ, ég sá þig á leiknum. Takk fyrir að mæta. Vonandi sé ég þig aftur síðar," ritaði Albrecht til Upton á Twitter. Hún hefur setið fyrir á síðustu tveimur forsíðum sundfatatímarits Sports Illustrated.
Upton er frá Michigan og var að styðja Albrecht og félaga. Hún hefur ekki enn séð sér fært að svara stráknum. Upton er á lausu fyrir þá sem eru í sömu hugleiðingum og Albrecht.
