Körfubolti

Englarnir unnu annan titilinn á fjórum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða Good Angels Kosice
Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í slóvakíska liðinu Good Angels Kosice enduðu tímabilið með því að vinna enn einn titilinn því liðið tryggði sér í kvöld sigur í slóvakísku-ungversku deildinni sem var sett á laggirnar í fyrsta sinn í vetur.

Englarnir unnu þá fjögurra stiga sigur á ungverska liðinu UNIQA Euroleasing Sopron í úrslitaleiknum, 62-58. Helena hefur þar með unnið fimm stóra titla með liðinu á þeim tveimur tímabilum sem hún hefur leikið í Slóvakíu.

Good Angels Kosice varð slóvakískur meistari á þriðjudagskvöldið eftir sigur á 80-63 sigur á MBK Ruzomberok í oddaleik en Good Angels liðið varð einnig slóvakískur bikarmeistari og komst alla leið í undanúrslitin í Euroleague. Liðið vann síðan tvöfalt í fyrravetur.

Úrslitahelgi slóvakísku-ungversku deildarinnar fór fram á heimavelli Good Angels Kosice sem vann ungverska liðið Győr í undanúrslitunum og svo Sopron í úrslitaleiknum í kvöld.

Helena skoraði 4 stig í 75-55 sigri á Győr í undanúrslitunum í gær en hún var líka með fjögur stig í úrslitaleiknum. Það voru því stigin hennar Helenu sem skildu á milli liðanna. Good Angels Kosice var 29-20 yfir í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×