Körfubolti

Fækkaði um tvo í landsliðshópnum rétt fyrir brottför

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Anton

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta verður ekki með fullt lið á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg sem hefjast í næstu viku. Aðeins tíu leikmenn flugu út í morgun þar sem tveir urðu að segja sig út úr hópnum vegna meiðsla.

Þeir Hörður Axel Vilhjálmsson sem spilar með MBC í Þýskalandi og Finnur Atli Magnússon sem spilar með KR voru valdir í tólf manna hópinn en drógu sig út úr hópnum vegna meiðsla. Þetta er áfall fyrir liðið enda Hörður Axel og Finnur Atli líklegir til að spila stórt hlutverk í liðinu.

Það er mikið um forföll í landsliðshópnum á þessu móti og þar á meðal er þjálfarinn Peter Öqvist, þjálfari landsliðsins sem átti ekki heimangengt, að þessu sinni. Aðstoðarmaður hans, Pétur Már Sigurðsson, mun stýra íslenska liðinu.

Það eru aðeins þrír leikmenn í liðinu sem voru með í undankeppni EM síðasta haust en það eru bakvörðurinn Ægir Þór Steinarsson, framherjinn Axel Kárason og skyttan Brynjar Þór Björnsson. Af tíu leikmönnum hafa fjórir aldrei spilað A-landsleik áður.

Brotthvarf þeirra Harðar og Finns þýðir einnig að Magnús Þór Gunnarsson er einn með yfir helminginn af landsliðsreynslu hópsins. Magnús Þór hefur spilað 73 landsleiki en hinir níu leikmennirnir hafa aðeins spilað 70 landsleiki samanlagt.

Landslið karla á Smáþjóðaleikunum:

Brynjar Þór Björnsson, KR - 26 landsleikir

Ægir Þór Steinarsson, Newberry - 13 landsleikir

Axel Kárason, Værlöse - 15 landsleikir

Jóhann Árni Ólafsson, Grindavík - 14 landsleikir

Ragnar Nathanaelsson, Hamar - Nýliði

Elvar Már Friðriksson, Njarðvík - Nýliði

Justin Shouse, Stjarnan - Nýliði

Martin Hermannsson, KR - Nýliði

Magnús Þór Gunnarsson, Keflavík - 73 landsleikir

Jón Ólafur Jónsson, Snæfell - 2 landsleikir

Pétur Már Sigurðsson – Þjálfari

Arnar Guðjónsson - Aðstoðarþjálfari




Fleiri fréttir

Sjá meira


×