Körfubolti

Kobe Bryant til Þýskalands í læknismeðferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant
Kobe Bryant Mynd/AP
Körfuboltamaðurinn Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers leitar nú allra ráða til þess að ná sem fyrst fullum styrk eftir að hafa slitið hásin í apríl á síðasta tímabili. Það var mikil bjartsýni hjá kappanum fyrr í sumar en það hefur dregið aðeins úr henni upp á síðkastið. Nýjust fréttirnar af Bryant eru þó ekki af hásinarvandamálum leikmannsins.

Bryant er nú á leiðinni í læknismeðferð til Þýskalands samkvæmt fréttum í bandarískum miðlum en hann er þó ekki að láta laga á sér hásinina að þessu sinni heldur að reyna að losna við bólgur úr hné.

Bryant fór til tvisvar til Þýskalands árið 2011 þegar hann var að jafna sig eftir meiðsli á hægra hné og vinstri ökkla. Hann fann til á báðum stöðum en meðferðin í Þýskalandi gekk þá mjög vel.

Kobe Bryant mun nú fara í nýstárlega meðferð á hné þar sem blóði úr bólgnu hné hans er sett í skilvindu og svo sprautað aftur inn í hnéð. Þeytivindan á að mynda blóðvökva án storknunarþátta og það á síðan að hjálpa til við að minnka bólgurnar.

Kobe Bryant varð 35 ára gamall í ágúst en hann hefur spilað í NBA-deildinni frá árinu 1996 og er einn sigursælasti og stigahæsti leikmaður sögunnar í NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×