Handbolti

Guðjón Valur fór hamförum í sigri Íslands á Austuríkismönnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu.
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu.
Íslenska landsliðið í handbolta vann góðan sigur á því austurríska, 29-28, í vináttulandsleik í Linz í Austurríki í kvöld.

Íslenska liðið byrjaði leikinn virkilega vel og komst fljótlega sjö mörkum yfir 14-7. Guðjón Valur Sigurðsson var stórbrotinn í fyrri hálfleiknum og eftir tuttugu mínútna leik hafði hann gert sjö mörk.

Staðan var 20-15 fyrir Íslendingum í hálfleik.

Íslenska liðið gaf örlítið eftir í þeim síðari og varð leikurinn mun meira spennandi. Þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum náðu Austurríkismenn að jafna metin í 25-25 en Íslendingar voru sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum fínan sigur.

Guðjón Valur var atkvæðamestu í íslenska liðinu með ellefu mörk. Ásgeir Örn Hallgrímsson átti einnig góðan leik með íslenska liðinu og skoraði sex mörk.

Viktor Szilagyi var markahæstur í liði Austurríkis með sjö mörk en Patrekur Jóhannesson er þjálfari austuríska landsliðsins í handknattleik.

Liðin mætast aftur á sama stað í kvöld en um er að ræða leiki í undirbúningi liðsins fyrir Evrópumótið í Danmörku sem fram fer í upphafi næsta árs.

Markaskorar Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 11/4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 6, Róbert Gunnarsson 3, Ólafur Bjarki Ragnarsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 1, Arnór Atlason 1, Þórir Ólafsson 1, Snorri Steinn Guðjónsson 1, Ólafur Guðmundsson 1, Ernir Hrafn Arnarson 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×