Handbolti

Fullkomið kvöld hjá Hafnfirðingum | Myndir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndir/Daníel
Haukar unnu tveggja marka sigur á Selfyssingum og FH vann þægilegan sigur á Aftureldingu í 16-liða úrslitum Coca Cola bikarsins í handknattleik kvenna í kvöld.

Haukakonur mættu mun ákveðnari til leiks gegn Selfossi í kvöld. Með Gunnhildi Pétursdóttur í broddi fylkingar náðu þær rauðklæddu góðu forskoti og leiddu með átta mörkum í hálfleik, 18-10.

Gestirnir af Selfossi réttu sinn hlut í síðari hálfleik og vel það. Carmen Palamariu skoraði níu mörk fyrir gestina sem önduðu ofan í hálsmálið á heimakonum en þurftu að lokum að játa sig sigraðar. Lokatölurnar 30-28 fyrir Hauka.

Gunnhildur Pétursdóttir skoraði tíu mörk fyrir Hauka, Viktoría Valdimarsdóttir sex og Karen Helga Sigurjónsdóttir fimm. Hjá gestunum var Carmen Palamriu atkvæðamest sem fyrr segir en Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði sex mörk.

Í Kaplakrika unnu FH-ingar nokkuð þægilegan sigur á Aftureldingu. Lokatölurnar urðu 26-18 eftir að FH hafði leitt í hálfleik 12-9.

Steinunn Snorradóttir skoraði sex mörk fyrir heimakonur en annars dreifðist markaskorun FH-inga nokkuð jafnt. Níu leikmenn komust á blað en Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Ingibjörg Pálmadóttir skoruðu fjögur mörk hvor.

Sara Kristjánsdóttir skoraði sjö mörk fyrir gestina úr Mosfellsbæ og Telma Frímannsdóttir sex. Athygli vakti að markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar, Hekla Daðadóttir, skoraði aðeins eitt mark í leiknum.

FH og Haukar eru því komnin í átta liða úrslit bikarsins en Mosfellingar og Selfyssingar eru úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×