Íslenski boltinn

Hannes búinn að skrifa undir hjá Sandnes Ulf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes fagnar Íslandsmeistaratitlinum með KR.
Hannes fagnar Íslandsmeistaratitlinum með KR. Mynd/Daníel
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er nýjasti atvinnumaður Íslands en hann skrifaði í dag undir samning við norska úrvalsdeildarliðið Sandnes Ulf. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Hannes Þór er 29 ára gamall og hefur tvisvar sinnum fagnað Íslandsmeistaratitlinum með KR á síðustu þremur tímabilum. Hann hefur verið fastamaður í marki íslenska landsliðsins síðan að Lars Lagerbäck tók við.

„Við erum mjög ánægðir með að fá svona öflugan leikmann til okkar. Við höfum fylgst vel með íslenska markaðnum og Hannes æfði líka með okkur í október," sagði Tom Rune Espedal, framkvæmdastjóri Sandnes Ulf.

„Við erum að fá til okkar reyndan markvörð sem hefur spilað með toppliði á Íslandi og er kominn með alþjóðlega reynslu. Þegar ég sá hann fékk ég það strax á tilfinninguna að hann væri sigurvegari," sagði Espedal.

„Hannes hélt íslenska landsliðinu inn í umspilsleikjunum á móti Króatíu og varði oft frábærlega í leikjunum,. Hann er stór og sterkur markvörður sem er góður í stóru leikjunum. Hann er líka mjög einbeittur og ábyrgur markvörður," sagði Espedal.

„Þetta eru stór félagsskipti fyrir félag eins og Sandnes Ulf og sýnir að félagið ætlar sér stærri hluti í næstu framtíð," sagði Espedal en Sandnes Ulf var nýliði í norsku úrvalsdeildinni í sumar og hélt sér uppi.

Sandnes Ulf verður því áfram Íslendingalið en Steinþór Freyr Þorsteinsson hætti hjá liðinu eftir tímabilið. Með liðinu spilar hinsvegar Steven Lennon sem gerði garðinn frægan hjá Fram í nokkur ár.

Mynd/Heimasíða Sandnes Ulf



Fleiri fréttir

Sjá meira


×