Handbolti

Vil festa mig í sessi sem gæðaleikmann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Grosswallstadt.
Rúnar hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Grosswallstadt. Getty Images/Bongarts

„Þetta er óneitanlega mjög spennandi eftir þungan vetur bæði hvað varðar meiðsli og annað,“ segir Rúnar Kárason. Landsliðsmaðurinn hefur gengið til liðs við Rhein-Neckar Löwen frá Grosswallstadt.

Rúnar var frá keppni vegna meiðsla fram í febrúar og stóð svo í stappi ásamt öðrum leikmönnum Grosswallstadt að fá laun sín greidd. Þá féll liðið úr efstu deild á dögunum.

„Ég var búinn að heyra af því að þetta gæti verið inni í myndinni fyrst Alexander (Petersson) væri meiddur,“ segir Rúnar. Áhuginn hafi svo verið staðfestur og hann farið í læknisskoðun á mánudagskvöldið.

„Ég er þakklátur fyrir að Gummi (innsk. Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Löwen) skuli hafa trú á mér í stöðuna,“ segir Rúnar. Löwen hafnaði í þriðja sæti þýsku deildarinnar auk þess að vinna sigur í EHF-bikarnum. Rúnar ræðst því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

„Þetta er náttúrulega mjög krefjandi og stórt stökk. Ég er mjög spenntur og staðráðinn í að nýta tækifærið vel. Ég vil festa mig í sessi sem gæðaleikmaður og sýna að ég get spilað í þessum styrkleikaflokki,“ sagði landsliðsmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×