Í greininni segir hann marga hafa sterkar skoðanir á því hvað einkennir íslenska tónlist og hvers vegna hún er eins og hún er. Þar séu orð eins og „skrítin“, „álfaleg“, „krúttleg“ og „jarðnesk“ oft notuð.
„Það virðist vera lögð mikil áhersla á að íslensk tónlist sé undir áhrifum frá náttúrunni, umhverfinu, þjóðsögum og ýmsu fleiru. Ég er ósammála því og finnst alls ekkert krúttlegt vera við íslenska tónlist. Í raun og veru finnst mér stærsti áhrifavaldur hennar vera almenn leiðindi,“ skrifar hann og heldur áfram: „Að alast upp í Reykjavík er leiðinlegt. Skortur á dagsljósi og slæmt veðurfar í um sex mánuði á ári hefur mikil áhrif á hvernig þú eyðir tímanum. Af því að við höfum úr fáu að velja byrjum við frekar ung að læra á hljóðfæri.“
Hann bætir við að vegna þess hversu margir eru í hljómsveitum og sumir í mörgum, séu meiri líkur á að áhugaverð tónlist komi frá Íslandi. Það hafi ekkert að gera með landslagið eða eitthvað slíkt.