Skoðun

SA vill semja um kjaraskerðingu

Gylfi Arnbjörnsson skrifar
Ágæti launamaður.

Mig langar að gera stuttlega grein fyrir stöðunni í kjaraviðræðunum. Samninganefnd Alþýðusambands Íslands hafði um nokkra vikna skeið unnið ásamt Samtökum atvinnulífsins að ramma fyrir svokallaðan aðfarasamning til 8-12 mánaða sem lagt gæti grunninn að kjarasamningi til lengri tíma.

Þegar kom að því að ræða launalið þessa skammtímasamnings þar sem stefnt yrði að auknum kaupmætti launa á grundvelli stöðugleika og sérstakri hækkun lægstu launa þá skelltu SA menn í lás. Þetta vildum við gera með því að hækka lægstu laun um ákveðna krónutölu en að síðan tækju önnur laun prósentuhækkunum. Tilgangur okkar með þessari leið var að lægstu launin hækkuðu hlutfallslega mest.

Yfir því sáu SA ofsjónum fyrir utan að hafna almennum launabreytingum sem samninganefnd ASÍ var tilbúin að ræða og voru innan þeirra marka sem Seðlabankinn hefur nefnt sem þolmörk með tilliti til verðbólgu. Þessa afstöðu er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að Samtök atvinnulífsins vilji eingöngu semja um almenna kjaraskerðingu og leggja mjög lítið af mörkum til þeirra sem lægst hafa launin.

Það væri forvitnilegt að setja þann mun sem er á tilboði SA og hugmyndum ASÍ um hækkun launa í samhengi við laun forstjóra þeirra fyrirtækja, sem skráð eru á verðbréfamarkaði eða eru á leið í skráningu, þar sem hver og einn þeirra fær sem nemur margföldum árslaunum tekjulægsta fólksins. Þetta er ekki bara óeðlilegt, þetta er óásættanlegt. Við viljum ekki svona samfélag aukinnar misskiptingar á Íslandi. Undir það mun verkalýðshreyfingin aldrei skrifa.




Skoðun

Sjá meira


×