Körfubolti

NBA í nótt: Fimmti sigur Indiana í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Indiana Pacers vann sinn 25. sigur á tímabilinu í nótt er liðið vann sannfærandi sigur á Cleveland Cavaliers, 91-76.

Þetta var fimmti sigur Indiana í röð en liðið hefur aðeins tapað fimm leikjum allt tímabilið. Þetta var enn fremur áttundi sigur liðsins á Cleveland í röð.

Indiana gerði út um leikinn í fjórða leikhluta með frábærum varnarleik. Cleveland nýtti þá aðeins þrjár af sextán tilraunum sínum og tapaði boltanum sjö sinnum.

Paul George skoraði 21 stig og Roy Hibbert nítján. Kyrie Irving, lykilmaður í liði Cleveland, fór af velli vegna hnémeiðsla í þriðja leikhluta.

Indiana er með bestan árangur allra liða í NBA-deildinni og trónir á toppi Austurdeildarinnar. Miami er skammt undan en þessi tvö lið eru í sérflokki í deildinni.

Portland hafði betur gegn Oklahoma City, 98-94, í toppslag í Vesturdeildinni. LaMarcus Aldridge skoraði 25 stig og tók fjórtán fráköst fyrir Portland sem lenti mest þrettán stigum undir í síðari hálfleik.

Kevin Durant skoraði 37 stig og tók fjórtán fráköst fyrir Oklahoma City en það dugði ekki til. Liðið hafði unnið tólf af síðustu þrettán leikjum sínum í deildinni en í þetta sinn reyndist Portland sterkara á lokamínútum leiksins.



Sacrameno vann Houston, 110-106. Rudy Gay var með 25 stig fyrir Sacramento en James Harden 38 stig og tíu fráköst fyrir Houston.

DeMarcus Cousins átti stóran þátt í sigrinum en hann vann boltann tvívegis á skömmum tíma á lokamínútum leiksins sem tryggði liði hans mikilvæg stig.

Atlanta vann Boston, 92-91. Paul MIllsap skoraði 34 stig og fimmtán fráköst fyrir Atlanta í leiknum.

Úrslit næturinnar:

Boston - Atlanta 91-92

Indiana - Cleveland 91-76

Orlando - Golden State 81-94

Houston - Sacramento 106-110

San Antonio - Brooklyn 113-92

Chicago - Toronto 79-85

Oklahoma City - Portland 94-98

LA Lakers - Milwaukee 79-94

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×