Körfubolti

Haukakonur mæta Snæfelli i bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lele Hardy var með tröllatvennu í kvöld.
Lele Hardy var með tröllatvennu í kvöld. Vísir/Daníel
Haukakonur tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleik kvenna í körfubolta eftir tíu stiga sigur á fráfarandi bikarmeisturum Keflavíkur, 76-66, í stórskemmtilegum og æsispennandi leik í undanúrslitum Powerade-bikarsins í TM-höllinni í Keflavík í kvöld.

Haukakonur eru komnar í bikarúrslitin í níunda sinn en þær voru síðast í Höllinni fyrir fjórum árum. Haukar mæta Snæfelli í bikarúrslitaleiknum en Snæfell sló KR út í gær.

Haukaliðið var með þrettán stiga forskot þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir en Keflavíkurliðið náði að minnka muninn niður í þrjú stig. Haukakonur héldu hinsvegar út og lönduðu sigri og sæti í bikarúrslitaleiknum.

Lele Hardy var með 26 stig og 29 fráköst fyrir Hauka og Margrét Rósa Hálfdanardóttir skoraði 16 stig. Bryndís Guðmundsdóttir var með 25 stig og 13 fráköst fyrir Keflavíkurliðið, Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 14 stig og Di'Amber Johnson var með 13 stig í sínum fyrsta leik með Keflavíkurliðinu.

Di'Amber Johnson kom inn í Keflavíkurliðið fyrir Porsche Landry sem var látin fara en féll nú í annað skiptið út úr bikarnum á tímabilinu því hún var leikmaður Hamars þegar Hvergerðingar voru slegnir út úr bikarkeppninni fyrir áramót.

Keflavík byrjaði leikinn mun betur og var 22-15 yfir eftir fyrsta leikhluta en munurinn var kominn niður í þrjú stig í hálfeik þar sem Keflavík var 36-33 yfir.

Haukakonur snéru leiknum við með frábærum þriðja leikhluta sem liðið vann 25-11 og komst í 58-47 fyrir lokaleikhlutann.

Haukaliðið var þrettán stigum yfir, 66-53, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir en Keflavíkurliðið setti smá spennu í leikinn með því að ná 8-0 spretti og minnka muninn í fimm stig, 66-61.

Lokamínúturnar voru æsispenandi. Di'Amber Johnson minnkaði muninn í þrjú stig, 69-66, þegar 70 sekúndur voru eftir en Keflavík var þá búið að ná 13-3 spretti. Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, tók þá leikhlé og endurstillti sínar stelpur sem kláruðu leikinn.



Keflavík-Haukar 66-76 (22-15, 14-18, 11-25, 19-18)

Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 25/13 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 14/6 fráköst, Di'Amber Johnson 13/7 fráköst/5 stoðsendingar, Sandra Lind Þrastardóttir 8/8 fráköst, Aníta Eva Viðarsdóttir 3, Bríet Sif Hinriksdóttir 2, Lovísa Falsdóttir 1.

Haukar: Lele Hardy 26/29 fráköst/6 stolnir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 16/4 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 10, Íris Sverrisdóttir 9, Lovísa Björt Henningsdóttir 8/7 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 3, Gunnhildur Gunnarsdóttir 2/4 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×