Körfubolti

Metin féllu í Stjörnuleik NBA í nótt og Austrið vann loksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving.
Kyrie Irving. Vísir/Getty
Það var nóg af stigum í Stjörnuleik NBA-deildarinnar sem fór fram í New Orleans í nótt en Austurdeildin vann þá í fyrsta sinn síðan 2010.

Austurdeildin vann 163-155 eftir að hafa komið til baka og unnið lokaleikhlutann 40-29. Alls voru skoruð 318 stig í leiknum sem er nýtt met en gamla metið var 303 stig frá því í framlengdum leik í Seattle árið 1987.

Kyrie Irving frá Cleveland Cavaliers var valinn maður leiksins en hann var með 31 stig og 14 stoðsendingar í leiknum. Irving hitti úr 14 af 17 skotum sínum í leiknum og skoraði alls 15 stig í fjórða leikhlutanum.

Carmelo Anthony (30 stig) var einnig öflugur en hann setti met með því að smella niður átta þriggja stiga körfum og þá var LeBron James með 22 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.

Það var einnig sett met í þriggja stiga körfum (30), körfum utan af velli (135) og stoðsendingum (88).

Kevin Durant og Blake Griffin skoruðu báðir 38 stig fyrir lið Vesturdeildarinnar og ógnuðu stigameti Wilt Chamberlain sem er 42 stig. 

Austurdeildin skellti í lás í vörninni í lokin en liðið skoraði tíu síðustu stig leiksins og fékk ekki á sig stig síðustu tvær mínúturnar.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×