Innlent

Dagur B. skúbbar alveg óvart um Júróvisjón

Jakob Bjarnar skrifar
Pollapönkararnir ásamt tveimur nýjum meðlimum sem heita Óttarr Proppé og Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi.
Pollapönkararnir ásamt tveimur nýjum meðlimum sem heita Óttarr Proppé og Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi. Dagur B. Eggertsson
Nokkur leynd hefur ríkt um tvo nýja bakraddarsöngvara hjá Pollapönki, sem fram munu koma á lokakvöldi forkeppni Júróvisjónkeppninnar um helgina. Dagur B. Eggertsson, forseti borgarstjórnar, upplýsti óvart um málið.

Dagur sat í skrifstofu sinni í ráðhúsinu, var að horfa út um gluggann og sá þá skrautlegan hóp fara yfir svellið fyrir framan glugga sinn: „Pollapönk pósar við gluggann hjá mér!“ skrifar Dagur sem brá upp myndavél og birti myndina við hið sama á Facebooksíðu sinni.

Hljómsveitin Pollapönk mun koma fram á úrslitakvöldi Júróvisjónkeppninnar um helgina og þeir höfðu gefið það út að tveir nýir bakraddasöngvarar myndu bætast í hópinn. Á Facebooksíðu hljómsveitarinnar eru aðdáendur sveitarinnar að reyna að geta til um hverjir þeir eru og eru ýmsir nefndir til sögunnar. En Dagur upplýsir um málið því á myndinni má, ásamt hinum fjóru knáu Pollapönkurum, sjá þá Óttarr Proppé alþingismann með meiru og Snæbjörn Ragnarsson úr Skálmöld á myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×