George Kiel III, aðstoðarritstjóri vefsins nicekicks.com, birti mynd af hnéhlífaúrvali Duncans á Twitter-síðu sinni fyrir sjöunda leik liðsins gegn Dallas Mavericks í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Á þeirri litríkustu, sem sjá má lengst til vinstri á myndinni sem Kiel tók, sést að hún er merkt íslenska stoðtækjafyrirtækinu Össuri.
Duncan er 38 ára gamall og á sínu 17. ári í NBA-deildinni en hann hefur fjórum sinnum orðið meistari með San Antonio Spurs. Liðið var hársbreidd frá því að vinna fimmta titilinn í fyrra en tapaði, 4-3, í lokaúrslitum gegn Miami.
Þrátt fyrir háan aldur slær Duncan ekkert af en hann er enn einn af albestu kraftframherjum deildarinnar. Hann spilaði 29 mínútur að meðaltali í leik í vetur en í heildina spilaði hann 74 af 82 leikjum liðsins í deildarkeppninni.
Duncan skilaði 15,1 stigi að meðaltali í leik og 9,7 fráköstum en liðið er nú 1-0 yfir í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Portland Trail Blazers eftir öruggan sigur í fyrsta leik liðanna.
Tim Duncan has some pretty interesting knee braces options for Game 7 today. #Spurs#Mavspic.twitter.com/dZjFxdPKiU
— George Kiel III (@geokthree) May 4, 2014