Valgeir Magnússon, sem flestir þekkja sem Valla Sport, hefur verið allt í öllu hjá íslenska hópnum. Vísir hringdi í Valla til Kaupmannahafnar í morgun en þá var íslenski hópurinn í hvíld og mátti ekki raska ró þeirra.
Nokkrar þjóðir sjálfkrafa áfram
Sjálfur sparar Valli sig ekki en hann hefur gripið til allra bragða í bókinni til að koma Pollapönkurunum rækilega á kortið. Hann stillir væntingum sínum í hóf, en spáir sínum mönnum 8. til 10. sæti í forkeppninni. „Já, eða 8. til 12. sæti en vona að það verði milli átta og tíu. Maður verður að vera raunsær í því og fara eftir því sem maður sér – miða við þau tæki og tól sem maður hefur: Hvernig eru lögin að seljast á iTunes? Hvað eru blaðamenn hinna þjóðanna að spá? Það eru nokkrar þjóðir sem eru sjálfkrafa áfram vegna stærðar sinnar. Við erum ekki ein af þeim. Það er alltaf erfiðara fyrir okkur að fara áfram en flestar aðrar þjóðir. Við getum ekki treyst á atkvæði landa okkar sem búsettir eru í öðrum löndum. En, við verðum bara að berjast í því og við erum ein fárra þjóða sem alltaf hafa farið í úrslit eftir að þetta fyrirkomulag var tekið upp.“

Sextán lög keppa í fyrri forkeppninni sem fram fer í kvöld og komast tíu áfram í aðalkeppnina. Fimmtu á sviðið eru fulltrúar Íslands í keppninni. Í gærkvöldi var generalprufa, sem er partur af keppninni því þá er sungið fyrir dómnefndir landanna og þeirra stigagjöf gildir fimmtíu prósent á móti símakosningu. Valgeir segir allt hafa gengið að óskum. „Það tókst stórkostlega til. Þeir voru frábærir á sviðinu, hljómuðu vel, söngurinn var góður, performansinn góður – það heppnaðist allt sem við ætluðum að gera þannig að ég er mjög vongóður.“
Á opnunarhátíðinni náðu Pollapönkararnir að stela senunni, en þeir mættu fúlskeggjaðir í kjólum í skærum litum. „Viðbrögðin voru mjög góð. Við vorum búnir að undirbúa okkur vel. Við vorum búnir að fara vel yfir það sem við ætluðum að segja. Því þegar maður kemur inn á dregilinn eru menn spurðir spurninga. Og það var búið að ákveða hvernig boðskapnum yrði komið á framfæri. Þeir voru eina atriðið sem fékk almennileg viðbrögð við því sem þeir voru að segja. Það var klappað, öskrað ... því fólk er að fíla þessi skilaboð. Og það heppnaðist mjög vel og það sem gerst hefur í kjölfarið er að fréttasíður um alla Evrópu eru að nefna einhver tvö til þrjú atriði ásamt sínu eigin og þeir einhvern veginn detta alltaf þar með. Þeir og skeggjaða konan frá Austurríki.“

Menn eru frábærlega stemmdir að sögn Valla. Fóru beint uppá hótel í gærkvöldi og snemma í háttinn eftir generalprufu. Morgunverður í morgun, sumir fóru í ræktina og svo er hvíld fyrir æfingu. Og svo er það bara stóra stundin.
Óttarr Proppé alþingismaður er bakraddasöngvari í laginu og Valli hefur notað hann óspart í kynningarskyni, enda óneitanlega sérstakt að alþingismaður komi fram sem slíkur í Eurovision. En, Óttarr var jafnframt í liði Reykvíkinga í Útsvari, spurningakeppni á Ríkissjónvarpinu. Hann hefur því þurft að fljúga á milli Íslands og Danmerkur og þurfti Valli sjálfur að hlaupa í skarðið fyrir Óttarr á æfingum. „Ég þurfti að syngja fyrir hann og það gekk vel. Sem betur fer því það er atriði sem notað hefur verið á internetinu og yfir 100 þúsund manns séð það – þegar ég söng með þeim. Sem betur fer söng ég í lagi, annars hefði það verðið skandall. Óttarr verður með í kvöld og í mjög góðu formi. Ég hitti hann í morgun, við morgunverðarborðið og hann fékk sér desert í morgunmat.“
Svona er rokkið orðið, desert í morgunmat en íslenski Eurovision-hópurinn er sérstaklega saman skrúfaður þetta árið: Meðlimir úr helstu rokk- og nýbylgjuhljómsveitum landsins undanfarin ár: Botnleðju, Dr. Spock, Skálmöld, Ham og fleiri framsæknar rokksveitir mætti nefna til sögunnar.
Nokkur leynd hefur ríkt um búninga en Valli segir óhætt að upplýsa um að þeir muni koma fram í jakkafötum í kvöld.