Körfubolti

NBA: Miami og San Antonio komust bæði áfram í nótt | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fagnar sæti í úrslitum Austurdeildarinnar í nótt.
LeBron James fagnar sæti í úrslitum Austurdeildarinnar í nótt. Vísir/Getty
Miami Heat og San Antonio Spurs tryggðu sér bæði sæti í næstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt eftir að hafa unnið seríur sínar 4-1.

LeBron James skoraði 29 stig og Dwyane Wade var með 28 stig þegar Miami Heat vann 96-94 heimasigur á Brooklyn Nets og tryggði sér sæti í úrslitum Austurdeildarinnar. Joe Johnson skoraði 34 stig fyrir Brooklyn.

Miami tryggði sér 4-1 sigur í einvíginu á móti Brooklyn Nets með flottum endaspretti en Brooklyn-liðið var með átta stiga forskot, 91-83, þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. LeBron James (5 stig), Ray Allen (5 stig) fóru fyrir 12-0 spretti Miami sem komst yfir á þriggja stiga körfu frá Allen.

Danny Green og Kawhi Leonard skoruðu báðir 22 stig í öruggum 104-82 sigri San Antonio Spurs á Portland Trail Blazers sem komst fyrir vikið áfram í úrslit Vesturdeildarinnar.

Portland hafði minnkað muninn í 3-1 í síðasta leik en Spurs-liðið var alltof sterkt fyrir framtíðarlið Portland. Tony Parker meiddist í leiknum og spilaði ekkert í seinni hálfleiknum.

Patty Mills var með 18 stig fyrir Spurs og Tim Duncan bætti við sextán stigum en San Antonio vann alla fjóra leiki sína í seríunni sannfærandi. LaMarcus Aldridge var stigahæstur hjá Portland með 21 stig og Damian Lillard skoraði 17 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Miami mætir annaðhvort Indiana Pacers eða Washington Wizards í úrslitum Austurdeildarinnar (staðan er 3-2 fyrir Indiana) en San Antonio Spurs bíður eftir sigurvegara í seríu Oklahoma City Thunder og Los Angeles Clippers (staðan er 3-2 fyrir OKC).









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×