Enski boltinn

Guðjón Valur þriðji Íslendingurinn hjá Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er kominn í eitt best mannaða handboltalið heims.
Guðjón Valur Sigurðsson er kominn í eitt best mannaða handboltalið heims. Vísir/getty
Eins og greint var frá fyrr í morgun er Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, genginn í raðir spænska stórveldisins Barcelona.

Guðjón Valur er annar íslenski handboltamaðurinn sem gengur í raðir Katalóníurisans og þriðji Íslendingurinn en áður hafa leikið með liðinu þeir ViggóSigurðsson og Eiður Smári Guðjohnsen.

Hornamaðurinn magnaði skrifaði undir tveggja ára samning við Barcelona en hann kemur til liðsins frá Kiel í Þýskalandi þar sem hann varð deildarmeistari í ár eftir ótrúlega lokaumferð.

Guðjón Valur er 34 ára gamall (35 á árinu), níu árum eldri en Viggó var þegar hann samdi við Barcelona árið 1979. Eiður Smári var 27 ára (28 á árinu) þegar hann var keyptur frá Chelsea fyrir tólf milljónir Evra árið 2006.

Hjá Barcelona mun Guðjón Valur leika með mörgum af allra bestu handboltamönnum heims. Hann er ekki óvanur því að spila með stórstjörnum en lið Barcelona er hreint ótrúlega mannað.

Útilínan er skipuð þeim Siarhei Rutenka frá Hvíta-Rússlandi, NicolaKarabatic frá Frakklandi og KirilLazarov frá Makedóníu. Rutenka og Lazarov eru einhverjir mestu markaskorarar heims og þá vita allir hvað Karabatic getur.

Af öðrum leikmönnum má nefna markvörðinn ArpadSterbik og franska línumanninn Cédric Sorhaindo. Guðjón Valur gæti verið síðasta púslið í liðið sem þráir að vinna aftur Meistaradeild Evrópu.

Íslendingarnir þrír hjá Barcelona:

Viggó Sigurðsson.Vísir/Pjetur
Viggó Sigurðsson

Íþrótt: Handbolti

Fæddur: 11. febrúar 1954

Kom til Barcelona frá Víkingi 1979

Fór frá Barcelona til Bayer Leverkusen 1981

Aldur við undirskrift: 25 ára

Afrek: Spænskur meistari 1980

Viggó Sigurðsson heillaði forráðamenn Barcelona upp úr skónum í B-keppninni á Spáni árið 1979 og var í kjölfarið fenginn til spænska liðsins sem hafði á þeim tíma aldrei orðið deildarmeistari.

Með Viggó og Valero Rivera, sem á seinni árum gerðist landsliðsþjálfari Spánar og vann heimsmeistaratitilinn með liðið í fyrra, varð Barcelona Spánarmeistari á fyrsta tímabili íslenska landsliðsmannsins.

Hann spilaði tvö ár með Barcelona áður en hann yfirgaf félagið og samdi við Leverkusen í Þýskalandi árið 1981. Hann varð síðar landsliðsþjálfari Íslands.

Eiður Smári Guðjohnsen.Vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen

Íþrótt: Fótbolti

Fæddur: 15. semptember 1978

Kom til Barcelona frá Chelsea 2006

Fór frá Barcelona til AS Monaco 2009

Aldur við undirskrift: 27 ára

Afrek: Spænskur meistari 2009, stórbikar Evrópu 2009, bikarmeistari 2009, stórbikar Spánar 2006 og 2009, sigurvegari í Meistaradeildinni 2009

Eiður Smári Guðjohnsen er eini knattspyrnumaður Íslendinga sem spilað hefur með Barcelona, en liðið á að baki 22 Spánarmeistaratitla og hefur fjórum sinnum unnið Meistaradeild Evrópu.

Barcelona borgaði Chelsea myndarlega upphæð fyrir Eið árið 2006 sem var nýorðinn Englandsmeistari með Lundúnaliðinu annað árið í röð. Hann skoraði sigurmark gegn Celta Vigo í sínum fyrsta deildarleik.

Í heildina spilaði Eiður Smári 72 deildarleiki með Barcelona á þremur tímabilum og skoraði tíu mörk. Hann yfirgaf félagið sumarið 2009 og hélt þá til Frakklands. Eiður var nú síðast á mála hjá belgíska liðinu Club Brugge.

Guðjón Valur Sigurðsson.Vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson

Íþrótt: Handbolti

Fæddur: 8. ágúst 1979

Kom til Barcelona frá Kiel 2014

Aldur við undirskrift: 34 ára

Guðjón Valur hefur, eins og allir vita, verið einn besti hornamaður heims um árabil. Hann er nýkrýndur Þýskalandsmeistari með Kiel og var valinn í lið úrslitahelgar Meistaradeildarinnar þar sem hann fór á kostum.

Hann hefur spilað með Kiel undanfarin tvö ár en var áður á mála hjá AG Kaupmannahöfn, Rhein-Neckar Löwen, Gummersbach og Essen.

Guðjón hefur leik með Barcelona í haust en hann er nú staddur með íslenska landsliðinu í Sarajevo þar sem það mætir Bosníu í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á HM 2015 í Katar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×