Neyðarástandi var lýst yfir í dag og tilkynnti forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, að stjórnvöld myndu láta almenna borgara fá vopn og annan búnað til að berjast gegn uppreisnarmönnunum. Uppreisnarmennirnir eru taldir tilheyra öfgahópnum ISIS sem tengdur er al-Kaída hryðjuverkanetinu.
Fyrr á þessu ári náðu uppreisnarmennirnir völdum í borginni Fallujah og margt bendir til þess að þeir nái Mosul einnig undir sig.
Um tvær milljónir manna búa í borginni, sem er ein sú hættulegasta í Írak. Um hundrað og fimmtíu þúsund hafa flúið borgina og þar eru á meðal fjöldi hermanna og lögreglumanna sem hafa klætt sig sem almenna borgara, af ótta við að verða fyrir barðinu á uppreisnarmönnunum.
Uppreisnarmennirnir náðu í nótt völdum yfir helstu stjórnarbyggingum borgarinnar, flugvellinum og aðalbækistöðvum hersins. Forseti íraska þingsins sagði í morgun að öryggissveitir hefðu sýnt litla mótspyrnu, enda hafi verið við ofurefli að etja.
Íslamistum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg síðustu misserin í Írak og síðustu daga hafa margar stórar árásir verið gerðar í vestur- og norðurhluta landsins.