Danska kvennalandsliðið í körfubolta vann og tapaði í tveimur vináttulandsleikjum í Austurríki um helgina en þetta voru tveir fyrstu leikir danska liðsins undir stjórn íslenska þjálfarans Hrannars Hólm.
Dönsku stelpurnar töpuðu fyrsta leiknum 64-56 í gær en unnu svo flottan 18 stiga sigur, 66-48, í seinni leiknum í dag. Hrannar náði greinilega að laga leik sinna stelpna mikið á milli leikja.
Danska liðið stakk af í seinni hálfleik í dag sem liðið vann með 14 stiga mun, 35-21 eftir að hafa verið 31-27 yfir í hálfleik.
Framundan eru síðan vináttulandsleikir við Ísland í næstu viku en Ísland og Danmörk mætast á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið og í Stykkishólmi á fimmtudagskvöldið.
Austurríska landsliðið mun halda Evrópukeppni smáþjóða sem íslenska landsliðið keppir á seinna í júlímánuði og talsverjar líkur eru á því að Ísland og Austurríki mætist þar þó svo að liðin séu ekki saman í riðli.
