Alfreð hefur verið á Íslandi síðustu daga en hann flaug til Amsterdam í Hollandi í morgun og þaðan var förinni heitið í Baskahéruðin á Spáni. Alfreð var að fara til San Sebastian, þar sem framundan var læknisskoðun hjá framherjanum snjalla áður en hann gengur til liðs við spænska úrvalsdeildarliðið Real Sociedad.
Að læknisskoðuninni lokinni mun Alfreð væntanlega ganga frá fjögurra ára samning við spænska félagið og verður þar með sjötti Íslendingurinn sem leikur í deild þeirra bestu á Spáni.
Alfreð hefur verið að ná sér eftir meiðsli síðustu vikur en hann æfði á Kópavogsvelli í gær og virtist þá ekkert ama að kappanum. Þannig að ólíklegt þykir að Alfreð komist ekki í gegnum læknisskoðunina.
Real Sociedad mun kaupa Alfreð frá hollenska félaginu Heerenveen þar sem Alfreð skorað 53 mörk í 62 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni síðustu tvö tímabil og varð markakóngur á síðustu leiktíð.
