Körfubolti

Helgi Már: Sem betur fer er ég með skilningsríkan vinnuveitanda

Óskar Ófeigur Jónsson í London skrifar
Helgi Már situr og hvílir sig eftir æfingu í Koparkassanum í kvöld.
Helgi Már situr og hvílir sig eftir æfingu í Koparkassanum í kvöld. vísir/óój
Helgi Már Magnússon bættist í hóp íslenska körfuboltaliðsins í dag þegar hann flaug til London ásamt Jóni Arnóri Stefánssyni.

Helgi Már spilaði í sigrinum á Bretum í Laugardalshöllinni en missti af tapleiknum í Bosníu.

„Við erum búnir að vera í sama prógrammi í sumar og allir hinir. Ég missti af leiknum í Bosníu út af vinnu og Jón Arnór út af samningsmálum," sagði Helgi Már Magnússon en reynsla hans og Jóns Arnórs verður gulls ígildi í Koparkassanum annað kvöld.

„Það er alveg æðislegt að fá að vera með í þessum leik og sem betur fer er ég með skilningsríkan vinnuveitanda," sagði Helgi Már en hann vinnur hjá Saga Film.

„Þeir eru búnir að vera mjög skilningsríkir og voru tilbúnir að leyfa mér að fara. Það var mín ákvörðun að vera heima í Bosníuleiknum vegna vinnuaðstæðna," sagði Helgi Már en hvað gerði hann til að komast inn í hlutina á fyrstu æfingunni.

„Ég lagði ekki áherslu á neitt sérstakt á þessari æfingu. Ég reyndi bara að pikka upp kerfin þannig að ég þyrfti ekki að vera hugsa um þau of mikið á morgun," sagði Helgi Már en hann og Jón Arnór eru rómaðir liðsmenn og því hafa menn ekki miklar áhyggjur af þeim félögum.

„Við erum ekkert að fara að þröngva einhverjum hlutum. Það sem kemur til okkar kemur og við ætlum bara að einblína á það að vinna þennan leik," sagði Helgi Már og bætti við:

„Það er ekkert mál að koma inn í þetta enda erum við búnir að þekkja þessa stráka það lengi og búnir að æfa í allt sumar. Þetta voru líka bara nokkrir dagar sem við misstum úr," sagði Helgi Már en hvað með möguleikana á morgun

„Þetta er góður „sjens" og við ætlum að reyna að nýta hann," sagði Helgi Már að lokum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×