„Þegar ég kom heim frá Gíneu í júní var enginn að tala um útbreiðslu ebólu. Ekki einn einasti fjölmiðill. En um leið og þetta fer á einhvern ímyndaðan hátt að ógna Vesturlöndum þá fara fjölmiðlar að tala um þetta alveg sýknt og heilagt og þá fara hlutirnir að gerast. Það er svo sem ágætt að eitthvað fari að gerast en það var af röngum ástæðum,“ segir Gunnhildur í samtali við Vísi.
Gunnhildur segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina hafa fyrst verið að taka við sér núna með því að loksins viðurkenna það sem Læknar án landamæra bentu á fyrir mörgum mánuðum síðan, það er að ástandið sé stjórnlaust og tala látinna hafi verið stórlega vanmetin. „Þetta er eitthvað sem Læknar án landamæra hafa verið að segja nú í lengri tíma en loksins kom þessi yfirlýsing frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í gær.“
Mikil þörf á aðstoð alþjóðasamfélagsins
Gunnhildur segir að Vesturlönd séu aldrei að fara upplifa einhvern ebólufaraldur sambærilegan þeim sem orðið hefur í Vestur-Afríku. „Auðvitað geta komið upp stök tilfelli yfirfærð frá Afríku til Evrópu, en sökum sóttvarna og heilbrigðiskerfisins á Vesturlöndum er þetta eitthvað sem við myndum tækla mjög hratt og örugglega. Við erum aldrei að fara sjá útbreiðslu þessa sjúkdóms á Vesturlöndum á sama hátt og hann hefur verið að breiðast út í Vestur-Afríku.“
Að sögn Gunnhildar er nauðsynlegt að muna að heilbrigðiskerfin í þessum ríkjum Vestur-Afríku voru við það að springa áður en ebólan kom upp. „Þau þurftu því á mikilli hjálp alþjóðasamfélagsins við að tækla venjulegt heilbrigðisástand í landinu. Nú þegar ebólan er orðin svona útbreidd eru þau því komin algerlega á kaf og hafa engan veginn burði til að tækla þetta. Það vantar allt – peninga, aðföng og annað sem þarf til að eiga við þennan faraldur – þannig að halda að þessi sjúkdómur verði að jafnmiklum faraldri á Vesturlöndum er náttúrulega bara idíótískt.“

Hún segir brýna þörf á aukinni samvinnu ólíkra samtaka sem vinna að því að hefta útbreiðsluna. „Það þarf að fylgja eftir „kontöktum“ þeirra sem eru smitaðir. Það þarf að bæta upplýsingagjöf og fræðslu í löndunum öllum þarna í Vestur-Afríku og það þarf að vera með betra eftirlitskerfi.“
Sex mánuðir hið minnsta þar til tök nást á útbreiðslunni
Joanne Lui, forseti Lækna án landamæra, sagði fyrr í dag að um sex mánuði myndi taka til að ná stjórn á útbreiðslu ebóluveirunnar. Í frétt BBC kemur fram að Lui telji þörf á styrkari leiðsögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í þeirri vinnu sem framundan er.
Ebólufaraldurinn hófst í Gúneu í febrúar síðastliðinn og hefur síðan dreifst til Líberíu, Síerra Leóne og Nígeríu. Enn sem komið er hafa 1.069 manns látist úr sjúkdómnum.
Lui sagði að nauðsynlegt væri að ná stjórn á útbreiðslunni í Líberíu, ætli mönnum að takast að ná stjórn á faraldrinum í heimshlutanum öllum. Enn sem komið er hafa rúmlega þrjú hundruð hafa látist vegna ebóluveirunnar í Líberíu.