Körfubolti

Fyrrum tengdadóttir Michael Jordan spilar með Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmen Tyson-Thomas.
Carmen Tyson-Thomas. Vísir/Getty
Keflvíkingar hafa fundið sér bandarískan leikmann fyrir kvennaliðið sitt í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Fram kemur á heimasíðu Keflavíkur að Carmen Tyson-Thomas sé búin að semja við liðið.

Tyson-Thomas er 23 ára og 177 sm bakvörður sem spilaði með Syracuse-háskólanum í Bandaríkjunum. Hún var með 10,6 stig, 6,6 fráköst, 2,0 stoðsendingar og 1,6 stolna bolta að meðaltali á 22,6 mínútum á lokaári sínu.

Tyson-Thomas er þó kannski þekktari á samfélagsmiðlunum fyrir annað en leik sinn með Syracuse-háskólanum því hún er fyrrum tengdadóttir Michael Jordan.

Jasmine, dóttir Michael Jordan, kom út úr skápnum fyrir ári og birti þá mynd af sér og kærustunni á Instagram eins og sjá má í þessari frétt hér. Kærastan á þeim myndum var einmitt umrædd Carmen Tyson-Thomas en samkvæmt nýjustu fréttum eru þær ekki lengur saman. Hér að neðan má sjá myndbrot með Carmen Tyson-Thomas af Instagram-síðu Jasmine Jordan.

Keflavíkurliðið er skipað mjög ungum stelpum í vetur en um miðjan september halda þær í æfingaferð til Spánar. Sigurður Ingimundarson tók við þjálfun liðsins á ný í sumar en þær urðu Íslands- og bikarmeistarar þegar hann þjálfaði þær síðast 2012-13.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×