Melissa Anne Pfeffe, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar hjá Veðurstofunni segir í samtali við blaðamann Vísis að verði viðvörnunarstígið hækkað í rautt séu menn nokkuð vissir að gos muni hefjast innan nokkurra klukkutíma. Verði viðvörunarstigið hækkað þýðir það að flug verður bannað á stóru svæði umhverfis Bárðarbungu.
Berggangurinn undir Dyngjujökli hefur verið að færa sig nokkuð til norðurs undanfarinn sólarhring og er endi ganganna undir Dyngjujökli, nokkra kílómetra frá jökulsporðinum. Vísir hefur áður greint frá því að Samhæfingarstöð almannavarna hefur fjölgað starfsfólki á vakt nú eftir hádegið, eftir að fór að bera á mikilli virkni undir jöklinum. Óróamælingar við Dyngjujökul, Grímsvötn og Bárðarbungu sýna að óróinn hefur færst í aukana frá því rétt eftir ellefu í morgun.
Hér má lesa punkta af fundi Vísindamanna sem má finna á vef Veðurstofunnar:
- Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu hefur aukist töluvert nú rétt fyrir hádegi
- TF-SIF hefur verið sett í viðbragðsstöðu sem er hluti af eðlilegu ferli við þessar aðstæður
- 25 km gangur undir Dyngjujökli hefur lengst hratt til norðurs á síðustu klukkustundum
- GPS landmælingar sýna heildargliðnun um rúmlega 20 cm frá því atburðir hófust
- Engar marktækar breytingar mælast í vatnsföllum í nágrenninu
- Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur en verið er að meta hvort ástæða sé að breyta honum