Dimman mökk leggur yfir stórt svæði umhverfis eldstöðina og hafa fjölmargir haft samband við fréttastofuna og talið að um hugsanlegt öskuský sé að ræða. Sú er þó ekki raunin, því mikið hvassviðri er á svæðinu og leggur sandstorm og mikið moldviðri yfir svæðið sem í kjölfarið þyrlar upp tilheyrandi ryki.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands er búist við stormi víða um land með snörpum vindhviðum við fjöll. Þá er jafnframt búist við mikilli úrkomu á suðausturlandi og er hætt við skriðum á þeim slóðum.
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2 er staddur á Skútustöðum í Mývatnssveit segir fokið umtalsvert. Kristján Már er að sjálfsögðu á vaktinni og setti út hvítan disk fyrir hádegi.

Einar Guðmann, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, setti sömuleiðis út disk á Akureyri í morgun og varð sá drullugur á skömmum tíma.
Einar vildi ekkert fullyrða hvort um ösku væri að ræða og taldi hann raunar líklegra á þeim tíma að um moldrok væri að ræða. Ómögulegt er hins vegar að fullyrða nokkuð um það.


