Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vill vita hvort að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ætli að beita sér fyrir lækkun á raforkuverði til garðyrkjubænda. Hann hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Ragnheiðar á Alþingi.
„Ef svo er, með hvaða hætti og hvenær kæmi það til framkvæmda?“ spyr Helgi einnig í fyrirspurninni.
Garðyrkjubændur hafa um langt skeið mótmælt því raforkuverði sem þeir greiða. Hafa þeir gert kröfu um að fá sambærileg kjör og stóriðjan. Samtök orku- og veitufyrirtækja, Samorka, hefur hinsvegar lýst því yfir að engar viðskiptalegar forsendur séu til staðar til að veita sama verð.
