Um sjöleytið í gærkvöldi mældust rúmlega 600 míkrógrömm af brennisteinsdíoxíði í rúmmetra í loftmælingastöðinni við Dalsmára í Kópavogi. Sá styrkur getur haft áhrif á þá sem stríða við öndunarerfiðleika. Mengunar frá gosinu varð vart allt norður í Árneshrepp á Ströndum í gær.
Frá klukkan sjö í gærkvöldi hafa mælst tæplega 30 skjálftar við Bárðarbungu þar af rúmlega helmingur frá miðnætti. Þrír skjálftar voru stærri en fjögur stig, sá stærsti reið yfir rétt fyrir klukkan fjögur í nótt og mældist hann fimm stig.
Örfáir skjálftar hafa mælst í bergganginum. Sá stærsti á þeim slóðum varð kl. 19:29 í gærkvöldi upp á 2,7 stig. Hvasst hefur verið á svæðinu og hefur það hugsanlega áhrif á fjölda smærri skjálfta. Dregið hefur úr vindi eftir því sem liðið hefur á nóttina.
Ekki sést til gossins á vefmyndavélum þar sem skyggni er mjög takmarkað eins og er en það sást til gossins um tíma í nótt í gegnum vefmyndavélar og þá virtist svipaður gangur í því og undanfarið.

