Jarðskjálfti af stærðinni 5,4 mældist við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar laust fyrir klukkan tíu í morgun. Skjálftinn er með þeim stærri sem mælst hafa frá upphafi eldsumbrotanna. Ekki mældist skýrt sigmerki á GPS-tæki samfara skjálftanum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Í tilkynningunni segir jafnframt að virkni í Bárðarbungu sé enn töluverð, en að dregið hafi úr virkni í Tungnafellsjökli.
Þá má búast við gosmengun vestan gosstöðvanna í Holuhrauni í dag, frá Húnaflóa og sunnanverðum Vestfjörðum suður um Reykjanes og uppsveitir Suðurlands. Á morgun er búist við hægri suðlægri átt og gæti orðið vart við mengun frá Tröllaskaka og austur yfir Djúpavog.
