Þrír íslenskir bardagakappar frá Mjölni munu berjast á AVMA bardagakvöldinu í Manchester annað kvöld. Bardagarnir eru áhugamannabardagar en þeir Bjarki Þór Pálsson, Bjarki Ómarsson og Magnús Ingi Ingvarsson berjast allir í léttvigt.
Bjarki Þór (5-1) berst um léttvigtarbelti AVMA bardagsamtakanna og með sigri verður þetta þriðji titillinn sem Bjarki Þór sigrar. Bjarki Þór tryggði sér léttvigtarbelti Shinobi MMA í Wales fyrir mánuði síðan eftir hengingu í 2. lotu. Þetta verður sjöundi áhugamannabardagi Bjarka og mætir hann Anthony Dilworth (6-3) sem er ríkjandi meistari.
Bróðir Bjarka, Magnús Ingi Ingvarsson (2-0-1), mætir hinum reynslumikla Ricardo Franco en bardaginn fer fram í léttvigt (70 kg). Franco er Mjölnismönnum kunnugur en hann sigraði Bjarka Ómarsson í maí í fyrra eftir dómaraákvörðun. Magnús hefur því harma að hefna gegn Franco.
Hinn 19 ára Bjarki Ómarsson (1-1) mætir Percy Hess (0-1) í léttvigt. Upphaflega átti Bjarki að berjast í fjaðurvigt (66 kg) en eftir að tveir andstæðingar hans hættu við vegna meiðsla á síðustu stundu fannst andstæðingur í þyngdarflokkinum fyrir ofan. Bjarki er einn af efnilegustu bardagamönnum þjóðarinnar og verður afar fróðlegt að fylgjast með honum í framtíðinni.
Hér að neðan má sjá viðtöl sem MMA Fréttir tók við bardagakappana þrjá en bardagarnir fara fram annað kvöld, 18. október, í Manchester.
Leiðin að búrinu: Bjarki Ómarsson vs. Percy Hess
Leiðin að búrinu: Bjarki Þór Pálsson vs. Anthony Dilworth
Leiðin að búrinu: Magnús Ingi Ingvarsson vs. Ricardo Franco

