Fótbolti

De Boer: Hiddink er búinn á því

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hiddink á æfingu með hollenska landsliðinu.
Hiddink á æfingu með hollenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm
Ronald de Boer, fyrrverandi leikmaður Ajax, Barcelona og hollenska landsliðsins, er lítt hrifinn af Guus Hiddink, landsliðsþjálfara Hollands.

De Boer, sem var í liði Hollands sem komst í undanúrslit á HM 1998 og EM 2000, segir að Ronald Koeman hefði frekar átt að taka við landsliðinu þegar Louis van Gaal steig frá borði eftir HM í Brasilíu í sumar.

„Mér sýnist sem Guus Hiddink hafi enga leikáætlun,“ sagði de Boer á Sky Sports í gærkvöldi.

„Hann sýnir leikmönnunum ekki hvernig á að gera hlutina. Ég myndi t.d. vilja sjá miðjumennina styðja betur við (Robin) van Persie. Ég kem ekki auga á neitt slíkt.

„Það eru margir leikir eftir til að snúa gengi liðsins við. En pressan á Hiddink er gríðarleg og sérstaklega þar sem ráðning hans var gagnrýnd í upphafi,“ sagði de Boer sem vildi frekar sjá Koeman, sem stýrir enska úrvalsdeildarliðinu Southampton í dag, taka við hollenska liðinu.

„Koeman var meira en tilbúinn að taka við starfinu og var mjög opinn með það. Með fullri virðingu fyrir Hiddink, þá er hann 67 ára. Hann er búinn á því að mínu mati.

„Hann hefur náð frábærum árangri í gegnum tíðina, en hugmyndir hans eru orðnar gamaldags. Koeman sýndi það hjá Feyenoord að hann getur búið til og mótað lið og hann veit hvernig þessir ungu leikmenn hugsa.“

Hiddink, sem stýrði landsliðinu áður á árunum 1994-1998, gerði samning í sumar um að stýra landsliðinu fram yfir EM 2016. Eftir það á Danny Blind, annar aðstoðarþjálfara Hollands, að taka við liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×