Fótbolti

Suárez lagði upp bæði mörk Barcelona gegn Almeria

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi tókst ekki að skora í dag.
Messi tókst ekki að skora í dag. Vísir/Getty
Barcelona vann nauman 1-2 sigur á Almeria á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum komst liðið á topp deildarinnar, allavega um stundarsakir.

Barcelona var miklu mun meira með boltann í leiknum, en heimamenn í Almeria tóku forystuna á 37. mínútu þegar Thievy skoraði eftir slæm mistök Lionels Messi sem tókst ekki slá markametið í efstu deild á Spáni í dag.

Luis Enrique, þjálfari Barcelona, gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik; tók Pedro og Munir El Haddadi út af og setti Luis Suárez og Neymar inn á í þeirra stað. Og hún bar svo sannarlega árangur.

Á 73. mínútu lagði Suárez boltann á Neymar sem skoraði sitt tíunda deildarmark í vetur. Skömmu síðar skallaði Messi í slá eftir fyrirgjöf Suárez.

Á 82. mínútu skoraði svo vinstri bakvörðurinn Jordi Alba sigurmark Barcelona eftir sendingu frá Suárez sem átti frábæra innkomu.  

Lokatölur 1-2 og Barcelona er því komið á sigurbraut á ný eftir tvo tapleiki í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×