Fótbolti

Real Madrid fengið 558 milljónir frá FIFA á einu ári vegna meiðsla leikmanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luka Modric gengur meiddur af velli á San Siro á sunnudaginn.
Luka Modric gengur meiddur af velli á San Siro á sunnudaginn. vísir/getty
Luka Modric, króatíski miðjumaðurinn sem leikur með Real Madrid í spænsku 1. deildinni fótbolta, verður frá keppni næstu þrjá til fjóra mánuðina vegna meiðsla.

Modric meiddist í óláta-landsleiknum gegn Ítalíu á San Siro í undankeppni EM á sunnudaginn og mætir ekki aftur til leiks fyrr en á næsta ári.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, ver aðildarfélög sín fjárhagslega þegar leikmenn meiðast í lengri tíma en 28 daga og borga viðkomandi félagi þá upphæð sem leikmaðurinn þénar á meðan hann er meiddur.

Modric fær fjórar milljónir evra í laun á ári (620 milljónir króna) og þar sem verður frá allavega í þrjá mánuði fær Real Madrid 1,6 milljón evra (248 milljónir króna) frá FIFA.

Þetta er í annað skiptið á einu ári sem FIFA þarf að punga út háum upphæðum til að greiða vel borguðum leikmönnum Real Madrid.

Þjóðverjinn Sami Khedira meiddist í fimm mánuði í landsleik gegn Ítalíu í nóvember í fyrra og var frá keppni í fimm mánuði.

FIFA borgaði brúsann sem kostaði sambandið tvær milljónir evra (310 milljónir króna) og hefur Real Madrid því í heildina fengið 3,6 milljónir evra (558 milljónir króna) frá FIFA á einu ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×