Fótbolti

Heimir: Gylfi og Rosicky báðir í heimsklassa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Plzen skrifar
Gylfi á æfingu íslenska landsliðsins hér í Plzen.
Gylfi á æfingu íslenska landsliðsins hér í Plzen. Vísir/Daníel
Fulltrúar tékkneskra fjölmiðla voru afar áhugasamir um miðjumanninn Gylfa Þór Sigurðsson sem verður væntanlega í stóru hlutverki er Ísland mætir Tékklandi í undankeppni EM 2016 í Plzen í kvöld.

Landsliðsþjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck sátu fyrir svörum sem og fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson. „Gylfi er í fantaformi og hefur staðið sig virkilega vel á þessu tímabili [með Swansea í ensku úrvalsdeildinni],“ sagði Aron Einar. „Í síðasta landsleik [gegn Hollandi] sýndi hann og sannaði að hann getur unnið á við tvo leikmenn auk þess sem hann getur breytt leikjum.“

„Hann er toppleikmaður sem er virkilega gott að spila með,“ bætti fyrirliðinn við.

Heimir var beðinn um að bera Gylfa saman við Tomas Rosicky, leikmann tékkneska liðsins og Arsenal. „Þeir eru báðir heimsklassaleikmenn sem eru virkilega vinnusamir. Ég held að það sé óalgengt að jafn hæfileikaríkir menn og þeir séu jafn vinnusamir.“

Gylfi hefur blómstrað á miðju íslenska liðsins í 4-4-2 leikkerfi þeirra Heimis og Lars. Í fyrstu var hann í hinum ýmsu stöðum á vellinum en var loks færður á miðjuna í 4-4 jafnteflinu gegn Sviss í Bern.

„Við höfum reynt ýmsar útfærslur en við vorum að reyna að finna hvernig hann passaði best inn í liðið. Við gerðum okkur grein fyrir mistökum okkar þegar við settum hann á miðjuna en samvinna hans og Arons Einars hefur verið mjög góð í síðustu leikjum.“


Tengdar fréttir

Hannes: Ég sakna Gulla smá

Landsliðsmarkvörðurinn verður væntanlega á sínum stað í marki Íslands gegn Tékklandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×