Knattspyrnusérfræðingur Sky Sports í spænska boltanum, Guillem Balague, heldur því fram í nýrri bók að Cristiano Ronaldo uppnefni Lionel Messi.
Hann tali niðrandi um hann og hafi lengi gert í klefa Real Madrid. Hann eigi að kalla Messi „Motherfucker." Ronaldo hafnar þessu og er brjálaður yfir þessum ummælum í bókinni.
„Það er ekkert til í þessu og ég hef beðið lögfræðinga mína um að stefna þeim sem eru ábyrgir fyrir þessum rógburði," sagði Ronaldo á Facebook-síðu sinni.
„Ég ber mikla virðingu fyrir öðrum atvinnumönnum í faginu og Messi er þar engin undantekning."
Þeir Messi og Ronaldo hafa barist undanfarin ár um titilinn besti knattspyrnumaður heims og eftir að hafa lengi setið í farþegasætinu er Ronaldo kominn fram úr Messi.
