865 hafa látist í loftárásum Bandaríkjahers og bandamanna hans í Sýrlandi frá því að árásir hófust í lok septembermánaðar.
Árásunum er beint gegn vígasveitum ISIS, en á meðal hinna látnu eru fimmtíu óbreyttir borgarar, þar af átta börn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bresku samtakanna Syrian Observatory for Human Rights.
Í skýrslunni kemur fram að 865 hafi látist í árásunum þó að raunveruleg tala kunni að vera mun hærri. Liðsmenn ISIS hafa náð stórum landsvæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald síðustu mánuði.
Í frétt Reuters segir að árásirnar hafi fyrst og fremst átt sér stað í sýrlensku héröðunum Aleppo, Deir al-Zor, Hasaka, Raqqa og Idlib. Alls hafa um 200 þúsund manns látist frá upphafi borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi í marsmánuði 2011.
