John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að baráttan gegn liðsmönnum ISIS gæti tekið mörg ár.
Kerry ávarpaði fyrr í dag fulltrúa þeirra bandalagsríkja sem taka þátt í stríðinu gegn ISIS á fundi í Brussel. Sagði Kerry að ríkin myndu heyja baráttuna „eins lengi og þörf krefur“.
Utanríkisráðherrar um sextíu ríkja funda nú í höfuðstöðvum NATO.
Orrustuþotur bandalagsríkjanna hafa gert loftárásir á skotmörk ISIS í Írak og Sýrlandi síðustu mánuði, en í frétt BBC kemur fram að Bandaríkjastjórn hafi ekki sagst tengjast árásum Íranshers gegn liðsmönnum ISIS í Irak síðustu daga. Íranir hafa gert loftárásir í Diyala-héraði í austurhluta Íraks að undanförnu.
Kerry sagði fjölbreytni bandalagsríkjanna vera merki um styrk og að hagsmunum og gildum þeirra stafaði mikil hætta af uppgangi ISIS.
