Fótbolti

Suarez hefur ekki áhyggjur af markaleysinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Luiz Suarez hefur ekki áhyggjur þótt honum hafi ekki tekist að skora í fimm fyrstu deildarleikjum sínum með Barcelona á Spáni.

Suarez skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið er hann kom sínum mönnum á bragðið í 4-0 sigri á APOEL í Meistaradeild Evrópu. Hann fór svo illa með tvö góð færi sem hann fékk í naumum 1-0 sigri Barcelona á Valencia á sunnudag.

„Ég veit að ég kom til Barcelona til að skora mörk en ég hef ekki áhyggjur,“ sagði Suarez. „Ég tel að mikilvægi mitt fyrir liðið feli meira í sér en að skora mörk. Ég vonast til að skora fleiri mörk en Barcelona eru með tvö undur [Lionel Messi og Neymar] og því hef ég ekki áhyggjur.“

Suarez var í fjögurra mánaða banni í sumar og haust eftir að hafa bitið Giorgio Chiellini, leikmann Ítalíu, á HM í sumar. Hann segist nú vera breyttur maður.

„Ég mun áfram berjast um hvern einasta bolta og ég mun ekki breyta mér fyrir nokkurn mann. En ég reyni að forðast ádeilur og rifrildi við andstæðinga mína og reyni frekar að vingast við þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×