Körfubolti

Valskonur Kanalausar fram að jólum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joanna Harden.
Joanna Harden. Vísir/Valli
Joanna Harden var ekki með kvennaliði Vals á móti Keflavík í gær og hefur spilað sinn síðasta leik með félaginu. Valsliðið spilar því þrjá síðustu leiki sína á árinu án bandarísks leikmanns.

Joanna Harden er annar stigahæsti leikmaður deildarinnar með 26,3 stig að meðaltali í leik auk þess að taka 5,9 fráköst og gefa 3,5 stoðsendingar í leik. Enginn leikmaður deildarinnar tók fleiri skot að meðaltali í leik (25,2).

Það vekur athygli að Harden skoraði mun minna í sigurleikjunum sjö sem hún spilaði með Val í Dominos-deildinni (22,4 stig í leik) heldur en í tapleikjunum fjórum (33,0).  

Valur mun mæta Haukum á útivelli og Grindavík á heimavelli án erlends leikmanns en liðið getur ekki fengið til sín annan bandarískan leikmann fyrr en eftir áramót.

Þrátt fyrir að spila án erlends leikmanns þá stóð Valsliðið í Keflavíkurliðinu í gær en Carmen Tyson-Thomas, bandaríski leikmaðurinn í liði Keflavíkur, fékk hinsvegar að leika lausum hala og kláraði leikinn.

Tyson-Thomas endaði leikinn með 53 framlagsstig en hún skoraði 41 stig, tók 14 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og stal 7 boltum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×