Það kemur ekki mikið á óvart að Teitur skuli láta af störfum en margir bjuggust við því að hann myndi hætta eftir síðasta tímabil. Hann ákvað að taka slaginn eitt tímabil til viðbótar en ætlar nú að yfirgefa Garðabæinn.
„Ég veit ekki hvað ég geri. Ég get alveg viðurkennt að mig er farið að langa í smá frí en ég þori samt ekki að lofa neinu á þessum tímapunkti,“ sagði Teitur við Fréttablaðið fyrr í mánuðinum.
Búið er að tilkynna ákveðnum hópum innan Stjörnunnar að þjálfarabreyting verði á liðinu, þar á meðal leikmönnum liðsins.

Hrafn Kristjánsson þjálfaði síðast KR frá 2010-2012 en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum eftir sigur á Stjörnunni í úrslitarimmu, 3-1. Íslandsmeistarabikarinn fór á loft á hans nýja heimavelli í Ásgarði.
Sem þjálfari Þórs fór Hrafn með liðið upp úr 1. deildinni 2007 eftir að hafa fallið árið áður. Hann starfar í dag sem þjálfari unglingaflokks hjá Stjörnunni og þekkir því vel til í Garðabænum, þá sérstaklega þá ungu leikmenn sem eru að koma þar upp.
Undir stjórn Teits Örlygssonar er Stjarnan orðin einn af stóru strákunum í íslenskum körfubolta en liðið hefur á síðustu fimm árum með Teit í brúnni unnið bikarmeistaratitilinn í tvígang og tvisvar farið í lokaúrslitin. Liðið hafði aldrei leikið til úrslita í bikarnum né komist í úrslitakeppnina áður en Teitur tók við.