Lokaleikur handboltatímabilsins fer fram í Mýrinni í Garðabæ klukkan 13.30 í dag þegar deildarmeistarar Stjörnunnar og bikarmeistarar Vals spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Þetta er í þriðja árið í röð sem það þarf oddaleik til að skera úr um hvaða lið vinnur Íslandsmeistaratitilinn hjá stelpunum og bæði þessi lið hafa spilað svona leik á síðustu tveimur árum. Niðurstaðan og upplifun liðanna var aftur á móti gerólík.
Valskonur urðu síðast Íslandsmeistarar fyrir tveimur árum eftir 24-21 sigur á Fram í oddaleik á Hlíðarenda. Það var þriðji Íslandsmeistaratitill Valsliðsins í röð. Stjörnukonur voru hins vegar í sams konar leik í fyrra þegar þær urðu að sætta sig við 16-19 tap á móti Fram. Stjarnan komst hins vegar í úrslitin í fyrra eftir dramatískan sigur á Valsliðinu í oddaleik í undanúrslitunum.
Stjarnan var einnig 2-1 yfir í úrslitaeinvíginu í fyrra en tapaði þá tveimur síðustu leikjunum og það gæti vissulega endurtekið sig í ár. Stjörnuliðið missti niður þriggja marka forskot í blálokin í fjórða leiknum þegar þær virtust vera að landa fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í fimm ár.
Stjörnuliðið býr nú að því að eiga heimaleikinn þar sem Garðabæjarkonur hafa unnið alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni til þessa. Nú er að sjá hvort heimavöllurinn dugi Stjörnukonum eða hvort Valskonur ná að leika eftir afrek Eyjamanna í fyrrakvöld og tryggja sér titilinn á útivelli.
Ólíkar minningar frá oddaleikjum

Tengdar fréttir

Óskar Bjarni vill sjá fleiri Valsmenn á vellinum
Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Vals, var ekki ánægður með að stuðningsmenn Vals hefðu verið í minnihluta á leik Vals og Stjörnunnar í gær.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Stjarnan 23-19 | Anna Úrsúla kláraði Stjörnuna
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sá til þess að Valur náði að knýja fram oddaleik í úrslitarimmunni gegn deildarmeisturum Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn.