Skoðun

Réttlátari Reykjavík

Sóley Tómasdóttir skrifar
Á morgun veljum við Reykvíkingar um hvernig samfélagi við viljum búa í. Stefna Vinstri grænna er að gera gott samfélag enn betra, með réttlæti, jöfnuð og sjálfbærni að leiðarljósi.

Það þarf að útrýma fátækt og tryggja börnum jöfn tækifæri til menntunar óháð efnahag foreldra þeirra. Það viljum við gera með því að afnema gjaldheimtu fyrir leikskóla, skólamáltíða og frístundaheimila og tryggja barnafjölskyldum með því auknar ráðstöfunartekjur.

Við verðum að standa vörð um almannaþjónustuna og eigur almennings. Þannig er hægt að tryggja að borgin bjóði upp á fjölbreytta og góða þjónustu í samræmi við þarfir og vilja borgarbúa en ekki einkaaðila og gróðasjónarmiða. Það er mikilvægt að standa með starfsfólki í almannaþjónustu, bæta kjör þess og aðstæður til starfsþróunar.

Margir borgarbúar eiga í vandræðum með að finna sér öruggt og varanlegt húsnæði á viðráðanlegu verði og það er langt síðan húsnæðismál hafa verið jafn mikilvægt viðfangsefni í stjórnmálum. Borgarstjórn verður að leggja sitt af mörkum til að jafna aðstöðumun leigjenda og eigenda húsnæðis. Það viljum við gera með því að stuðla að uppbyggingu leigu- og búseturéttaríbúða á félagslegum grunni með aðkomu borgarinnar. Auk þess þarf að mæta biðlistum eftir félagslegu húsnæði og hækka húsaleigubætur.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein helsta ógnin við það samfélag manna sem við þekkjum og við lítum á það sem skyldu borgarinnar að bregðast við. Í allri stefnumótun okkar og ákvarðanatöku á vettvangi borgarstjórnar munum við hafa ábyrgari lifnaðarhætti, minni neyslu og sóun, breytta samgönguhætti og ábyrgari auðlindanýtingu að leiðarljósi.

Það verður að virða mannréttindi og frelsi allra borgarbúa. Það er óásættanlegt að hugmyndafræði sem gengur gegn mannréttindum og elur á fordómum fái að hreiðra um sig í borgarstjórn. Allir borgarbúar eiga að njóta sömu réttinda, frelsis og tækifæra án undantekninga.

Atkvæði greitt Vinstri grænum er í þágu réttlætis í Reykjavík. Vinstri græn eru reiðubúin til að stíga róttæk og nauðsynleg skref til til að gera gott samfélag enn betra. Ef viljinn er fyrir hendi er betra samfélag raunhæft markmið.




Skoðun

Sjá meira


×