Skoðun

Ég reyndi að byggja ó­dýrar í­búðir í Reykja­vík

Pétur Marteinsson skrifar

Reykjavík er frábær borg. En margt má gera betur.

Ég vil byggja ódýrar íbúðir í Reykjavík. Praktískar íbúðir í góðu umhverfi. Til að ungt fólk geti eignast heimili og fjölskyldu í borginni þar sem það er alið upp. Það er jafnaðarmennska fyrir venjulegt fólk.

Reykjavík má ekki vera borg þar sem einunings börn þeirra efnameiri geta búið sér heimili.

Til að standa undir þessari hugsjón verður Samfylkingin í Reykjavík að þora að leiða breytingar. Við skulum hrista upp í kerfinu, gera það einfaldara og skipuleggja hraðar. Með áherslu á hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk. Þetta er skylda okkar sem jafnaðarfólks.

Ég reyndi að byggja ódýrar íbúðir

Eftir að hafa stofnað og rekið fyrirtæki í Reykjavík – eins og Kex Hostel og Kaffi Vest – þá ákvað ég að reyna að byggja íbúðir. Hagkvæmar en praktískar íbúðir í góðu umhverfi. Fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Þess vegna tók ég þátt í hugmyndasamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar árið 2018 þar sem kallað var eftir hugmyndum frá fagaðilum og áhugafólki um hagkvæmt húsnæði.

Ég tók þátt af sömu ástæðu og knúði mig áfram í rekstrinum. Því ég elska Reykjavík og vil taka þátt í að gera góða borg enn betri.

Til að gera langa sögu stutta þá sigruðum við í keppninni, hópur sem stóð að verkefninu, og fengum flest stig af 16 hópum sem tóku þátt. Fyrir vikið gátum við þróað verkefnið áfram á lóð sem var langt komin í skipulagi í Skerjafirði.

Við keyptum lóðina af Reykjavíkurborg og fórum á fullt í vinnu. Við réðum arkitekta og verkfræðinga og einsettum okkur að byggja 72 íbúðir sem væru eins hagkvæmar og mögulegt væri.

Kerfið og pólitíkin klikkaði

Þetta var nýsköpun til að stuðla að fjölbreyttara íbúðaframboði. Og við vildum hefjast handa strax.

En svo lentum við í kerfinu. Tafirnar byrjuðu. Kærumálin fóru af stað. Pólitíkin fór að snúast í hringi.

Við héldum lengi í vonina og ég hafði þetta verkefni að aðalstarfi í hátt í 5 ár. En á árinu 2023 – þegar fjögur ár voru liðin síðan framkvæmdir höfðu átt að hefjast – þá komu nýir hluthafar inn sem munu halda áfram með verkefnið þegar og ef lóðin verður byggingarhæf og ég steig út. Af einskærum áhuga og launalaust hef ég þó talað fyrir því hvar sem ég hef getað að þetta frábæra verkefni verði að veruleika, en ég á ekki nokkurra hagsmuna að gæta.

Á endanum var það kerfið og pólitíkin sem klikkaði og kom í veg fyrir að 72 ódýrar íbúðir risu á besta stað í borginni. Þrátt fyrir alla vinnuna og þrátt fyrir að við höfum sigrað í hugmyndasamkeppni sem Reykjavíkurborg efndi sjálf til um nýsköpun í íbúðauppbyggingu.

Þetta er hluti af vandanum. Því miður bara eitt dæmi af of mörgum þar sem kerfið hefur klikkað í Reykjavík.

Léttum á kerfinu og byggjum líflega borg

Ég get ekki annað en játað að ég er hundsvekktur að þessar íbúðir hafi ekki risið og að unga fólkið og fjölskyldurnar hafi aldrei flutt þarna inn og búið sér heimili.

En ég er reynslunni ríkari eftir að hafa reynt að byggja upp íbúðir í Reykjavík. Eftir að hafa setið þeim við borðið þá veit ég um sitthvað sem má betur fara hjá borginni og í kerfinu. Og það sama má segja um reynslu mína af öðrum rekstri í Reykjavík.

Við getum gert betur og við verðum að gera betur. Með því að taka til í rekstrinum, einfalda regluverk og létta á kerfinu. Allt í þágu almannahagsmuna – eins og Samfylkingin hefur einmitt gert svo vel nú upp á síðkastið á sviði landsmála.

Þess vegna gef ég kost á mér til að leiða Samfylkinguna og Reykjavík til sigurs – og ég bið um þinn stuðning til verksins.

Með því að skrá þig í Samfylkinguna getur þú tekið þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík sem fram fer laugardaginn 24. janúar.

Höfundur er rekstrarstjóri og frambjóðandi í 1. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×