„Ebólan breiðist hratt út, flest tilfellin hafa verið í Gíneu og næstflest í Síerra Leóne. Síðan hefur sjúkdómsins orðið vart í Líberíu, meira að segja í höfuðborginni Monróvíu,“ segir Gunnhildur. „Við héldum á einum tímapunkti að við værum að ná tökum á ástandinu, því tilfellum fór fækkandi á þeim sjúkrahúsum sem við vorum á. Síðan sáum við ný tilfelli skjóta upp kollinum á öðrum svæðum, sem er óalgengt þegar ebóla er annars vegar.“
Ebólufaraldrar hafa látið á sér kræla nokkrum sinnum á síðustu árum en útbreiðsla sjúkdómsins nú er með öðrum hætti. „Þetta er í fyrsta skipti sem ebólufaraldur hefur blossað upp á svona mörgum svæðum í einu og aldrei hefur gengið jafn illa að stemma stigu við útbreiðslu sjúkdómsins.“

Gunnhildur segir að uppfræðsla íbúa sé það eina sem gæti skilað árangri. „Menntunarstigið í Gíneu er lágt og þekking á sjúkdómum og smitvörnum er í lágmarki. Dánartíðni þeirra sem smituðust í Gíneu á meðan ég var stödd þar var 50 til 90 prósent. Dánartíðnin var hærri í sveitum landsins en lægri í höfuðborginni Kónakrí.“ Hún segir að auðveldara hafi verið að ná til fólks í höfuðborginni með útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum en úti á landsbyggðinni. „Einnig er aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu mun betra í borg en í sveitum Gíneu.“