Hvassviðri og væta einkenndu mótið og er því líklega um að kenna að aðsókn Íslendinga var minni en áður.
Hestakosturinn var sérstaklega sterkur að þessu sinni. Íslands- og heimsmet voru slegin og metdómar féllu. Bjarni Bjarnason á hryssunni Heru frá Þóroddsstöðum setti Íslands- og heimsmet í 250 metra skeiði og Teitur Árnason á Tuma frá Borgarhóli setti Íslandsmet í 150 metra skeiði. Þá var gefin afar fágæt einkunn og metdómur þar með kveðinn upp í flokki fjögurra vetra stóðhesta, en Konsert frá Hofi fékk 10 fyrir tölt og 8,60 fyrir hæfileika, knapi var Agnar Þór Magnússon.

Keppnin var æsispennandi fram á síðustu einkunn og áhorfendabrekkan var þétt setin. Hestarnir þóttu með eindæmum glæsilegir og sjá mátti áhorfendur taka við sér með tilheyrandi lófaklappi og fagnaðarlátum þegar hestarnir geystust áfram. Kvöldinu lauk með skemmtidagskrá í tjaldi og á velli og dönsuðu landsmótsgestir fram á rauðanótt.
