Körfubolti

Virði ákvörðun þjálfaranna

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kristófer Acox í leik með KR gegn Fjölni.
Kristófer Acox í leik með KR gegn Fjölni. Vísir/Getty
Kristófer Acox hefur dregið sig út úr æfingarhópi íslenska landsliðsins í körfubolta en háskóli Kristófers í Bandaríkjunum óskaði þess að hann myndi sitja hjá í leikjum íslenska liðsins í sumar. Þetta staðfesti Kristófer við Fréttablaðið í gær.

Kristófer var valinn í fyrsta sinn í íslenska landsliðshópinn en hann er nýkominn af stað á ný eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarna mánuði.

„Þeir vilja ekki að ég sé að hætta á að meiðast aftur ef ég fer of snemma af stað. Mér finnst ég persónulega vera tilbúinn í þetta verkefni en ég virði ákvörðun þjálfaranna. Það væri leiðinlegt ef ég myndi spila og meiðslin myndu taka sig upp aftur og ég yrði frá næsta hálfa árið,“ sagði Kristófer sem vonast eftir að fá annað tækifæri fljótlega.

„Vonandi fæ ég bara annað tækifæri á næsta ári. Draumurinn um að spila í Höllinni verður að bíða aðeins, stóra myndin skiptir meira máli þessa stundina.“

Kristófer sem er uppalinn í KR er ekki eini maðurinn sem hefur dregið sig út úr landsliðshópnum en Jakob Örn Sigurðarson hefur einnig dregið sig úr hópnum eins og Vísir greindi frá í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×