Innlent

Stöðug gosvirkni í gígnum Baugi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur. Vísir/Egill
 „Gosvirknin var nokkuð stöðug í allan gærdag í Holuhrauni. Í miðgígnum Baugi þeyttust upp stórir strókar en í Suðra, syðsta gígnum voru að byggjast upp háir gígveggir,“ sagði Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í gærkvöldi.

Þá átti hraunstraumurinn ófarna um hundrað metra til að loka vestustu kvísl Jökulsár á Fjöllum og átti Ármann von á að það myndi gerast í nótt.

Í gær hafði hraunið úr eldgosinu í Holuhrauni runnið tæpa 17 kílómetra í norðaustur frá syðsta hluta gossprungunnar.

Þokkalegt veður var á gosstöðvunum í gær, heiðskírt og sást gosið vel. Sandstormur var þó aðeins að angra vísindamennina sem voru við störf.

„En við björgum okkur ágætlega með grímur og gleraugu,“ sagði Ármann.

Um kvöldmatarleytið varð jarðskjálfti, 5,2 stig að stærð, á norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar.

Um 20 skjálftar stærri en 5 hafa mælst á öskjubrún Bárðarbungu síðan hrinan hófst um miðjan ágúst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×