„LH gengur á bak orða sinna,“ segir Jónína Stefánsdóttir, formaður hestamannafélagsins Stíganda í Skagafirði.
Landsmót hestamannafélaga er haldið annað hvert ár og hefur á síðustu árum verið haldið á þremur stöðum á landinu; í Reykjavík, á Gaddstaðaflötum á Hellu og Vindheimamelum í Skagafirði. Stjórn LH ákvað fyrir margt löngu að skrifa undir viljayfirlýsingu við hestamannafélög í Skagafirði um að halda landsmótið á Vindheimamelum árið 2016. Stjórn LH tók síðan þá ákvörðun í síðustu viku að slíta viðræðum við Skagfirðinga og ganga til viðræðna við hestamannafélög á höfuðborgarsvæðinu um að halda landsmót þar bæði 2016 og 2018.

„Hestamenn neita að horfast í augu við framtíðina,“ segir Haraldur Þórarinsson, sem sagði af sér sem formaður LH á landsþinginu um helgina. „Ef við skoðum síðustu landsmót hafa sex þeirra verið haldin á landsbyggðinni en eitt í Reykjavík. Því er ekki hægt að segja að við hugsum ekki um landsbyggðina í þessum efnum. Við verðum að hætta að hugsa um svæði heldur hugsa um hag íslenska hestsins og hvernig við getum búið svo um hnútana að vegsemd hans og virðing dafni.“
Landsmót hestamannafélaga eru jafnan fjölsótt og fjöldi erlendra ferðamanna hefur jafnt og þétt aukist á mótinu. „Það er í takt við nútímann að huga að þörfum þeirra sem sækja mót sem þetta. Sú þjónusta sem þarf að veita landsmótsgestum er aðeins fáanleg á tveimur stöðum á landinu, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á Akureyri, og við verðum að fara að horfast í augu við þann raunveruleika,“ segir Haraldur.